Ástæða breytinganna eru auknar líkur á eldgosi norðan Grindavíkur. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarmat á hættustigi svæðisins. Nýtt hættumatskort mun gilda til fimmta janúar að öllu óbreyttu.
Í uppfærslu frá Veðurstofunni segir að líkurnar á öðru kvikuhlaupi, og jafnvel eldgosi, aukist með hverjum deginum. Líklegasti staður nýs goss væri aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Tekið er fram að kvikuhlaup endi ekki alltaf með eldgosi.
Fullyrðing Veðurstofunnar, um að líkurnar á gosi aukist með hverjum deginum, var líka að finna í tveimur síðustu uppfærslum hennar. Síðasta uppfærslan á undan þeirri sem barst í dag kom fyrir tveimur dögum, og þar á undan fyrir viku síðan, daginn eftir að síðasta gosi lauk.
Í nýjustu uppfærslu Veðurstofunnar segir að land hefur haldið áfram að rísa í talsverðum mæli og hefur nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember.
„Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur þó fram að Landrisinu nú fylgi ekki eins mikil skjálftavirkni og áður. Hins vegar segir að með áframhaldandi landrisi sé líklegt að skjálftavirkni aukist aftur.