Í umfjöllun Financial Times kemur fram að keðjan muni frá og með deginum í dag því hætta sölu á vörum líkt og Pepsí, 7UP og Doritos snakki. Haft er eftir talsmanni verslanakeðjunnar að skilti verði sett upp þeirra í stað þar sem viðskiptavinum verði greint frá því að ástæðan sé „óásættanleg verðhækkun.“
Matvöruframleiðendur í Frakklandi og verslanakeðjur hafa átt í samningaviðræðum um matarverð. Samkvæmt talsmanni Carrefour hafa þær samningaviðræður við PepsiCo reynst afar flóknar. Carrefour hafi viljað lækka verð í takt við stöðu efnahagsmála á heimsvísu en PepsiCo hafi hinsvegar viljað hækkun.
Samningaviðræðunum á að vera lokið fyrir enda janúar. Það er tveimur mánuðum fyrr en allajafna, sökum tilmæla frá yfirvöldum þar í landi sem vilja að lægri verðbólga skili sér fyrr í lægra vöruverði til neytenda.
Í umfjöllun Financial Times er þess getið að Carrefour hafi ekki viljað gefa upp hverslags tölur PepsiCo hafi farið fram á í verðhækkunum. Fyrirtækið vildi ekki tjá sig um málið.
Þá kemur fram að keppinautur PepsiCo, Coca-Cola hafi einnig viljað hækka verð á sínum vörum í Frakklandi, um sjö prósent á næsta ári. Það hafi einnig leitt til erfiðra samningaviðræðna við stjórnendur matvöruverslana í landinu.
Segir í umfjöllun miðilsins að ekki sé um að ræða fyrsta skiptið sem matvöruverslanir beiti slíkum ráðum gegn framleiðendum þar í landi. Önnur matvöruverslanakeðja, Leclerc, hafi í sumar stöðvað sölu á drykkjum frá framleiðandanum Pernod Ricard tímabundið vegna hækkana.