Metfjöldi áhorfenda var mættur á Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf til að líta opnunarleikina eigin augum. Merkur Spiel-Arena er jafnan 54 þúsund manna fótboltavöllur þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Fortuna Düsseldorf spila heimaleiki sína í þýsku B-deildinni.
Eins og við var að búast áttu Frakkar, þrefaldir Evrópumeistarar og ríkjandi bronsverðlaunahafar EM, ekki í miklum vandræðum með andstæðinga sína frá N-Makedóníu í kvöld.
Makedónarnir settu fyrsta markið en eftir að Hugo Descat braut ísinn fyrir Frakkland áttu þeir lítinn séns. Descat fór fremstur í flokki Frakka og skoraði sjö mörk úr jafnmörgum skotum.
Hugon Descat and France start the show 😍 #ehfeuro2024 #heretoplay 🎆🎇🎇 pic.twitter.com/O2EDws6u0a
— EHF EURO (@EHFEURO) January 10, 2024
Miklir yfirburðir Frakka gáfu þeim tækifæri til að hvíla leikmenn og gefa fleirum færi á að sanna sig. Þegar leiknum lauk höfðu allir leikmenn Frakklands komið við sögu, að undanskildum einum.
Síðari leikur kvöldsins í A-riðli milli Þýskalands og Sviss hefst klukkan 19:45. Íslenska landsliðið spilar svo sinn fyrsta leik næsta föstudag gegn Serbíu klukkan 17:00.