Lögregluþjónar virðast hafa haft í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt en meðal annars barst tilkynning um hnífstungu í miðbænum í nótt. Sá sem var stunginn var fluttur á sjúkrahús en ekki er vitað hve alvarlega hann var særður. Einn var handtekinn skammt frá þar sem maðurinn var stunginn og er sá grunaður um að hafa beitt hnífnum.
Einnig barst tilkynning um líkamsárás í miðbænum, rúðubrot, skemmdarverk og einstaklinga sem neituðu annars vegar að yfirgefa verslun og hins vegar að yfirgefa skemmtistað.
Einn slasaðist á andliti í flugeldaslysi í Garðabænum en ekki er vitað um hve alvarlega hann slasaðist. Þá barst tilkynning um innbrot í Kópavogi og þjófnað í verslun í Árbæ.