Í þá daga var ákveðin tegund akademískrar tónlistar áberandi. Hún byggðist á ströngum og stirðum formúlum. Pleasants hataði hana og taldi dauða. Skoðun hans var að djassinn væri hinn raunverulegi arftaki klassískrar tónlistar.
Þetta var óþarfa svartsýni. Alls konar stefnur í tónsköpun hafa litið dagsins ljós síðan bókin var skrifuð. Í dag veit maður aldrei á hverju er von þegar ný tónlist er frumflutt. Og það er einmitt svo gaman.
Fyrst popp, svo fagurtónlist
Gott dæmi um það mátti heyra á föstudagskvöldið í Norðurljósasal Hörpu. Yfirleitt tengir maður Myrka músíkdaga við örgustu framúrstefnu. Á föstudaginn kom þar hins vegar fram Ragnhildur nokkur Gísladóttir, eða Ragga Gísla eins og þjóðin þekkir hana.
Hún byrjaði sem poppari í Grýlunum og svo Stuðmönnum. Eins og svo margir í dægurtónlistargeiranum skellti hún sér síðar í akademískt nám í sköpun svokallaðar fagurtónlistar. Varla er hægt að kalla tónleikana á föstudagskvöldið útkomuna af því öllu saman, en maður fékk samt ákveðna mynd af Röggu, sem var frábrugðin þessari venjulegu.
Undarleg sinfónía
Fyrsta verkið hét Túnfíflasinfónía og var í fjórum köflum. Hún var mjög ómstríð, hljómarnir voru annarlegir og laglínurnar óhefðbundnar.
Á Spotify má heyra tónlistina, sem virðist samanstanda af tónum úr mjög tölvuunnum blásturshljóðfærum, einskonar blístrum. Á tónleikunum var boðið upp á aðra mynd. Kammersveitin Cauda Collective vafði mjúkum strengja-, flautu- og slagverksleik utan um hrjóstruga tölvutónana. Útkoman var skemmtilegur seiður, afar dulúðugur.
Söng eins og smábarn
Næst á dagskrá voru lög af plötu sem kom út í fyrra og nefnist Baby. Á henni eru alls tíu lög. Helmingur þeirra var fluttur á tónleikunum í útsetningum nokkurra meðlima hljómsveitarinnar.
Þetta var allt öðru vísi tónlist en sú fyrrnefnda. Hljóðheimurinn var hefðbundinn og laglínurnar einfaldar og grípandi. Ragga söng í einskonar falsettu, eins og lítið barn. Það var dálítið fyndið, enda heyrðust nokkrir áheyrendur flissa.
Röddin var reyndar ekki eins markviss og skýr og á plötunni. Söngurinn var nokkuð losaralegur, sérstaklega í byrjun. Kannski hefði hann líka mátt vera örlítið sterkari í hljóðkerfinu. Engu að síður var tónlistin heillandi og kom í heild ágætlega út á tónleikunum.
Kammersveitin spilaði líka afar vel og Björk Níelsdóttir söng fallega undir. Leikurinn var nákvæmur og agaður, en samt gæddur viðeigandi léttleika. Það var eins og að horfa á fíngerðan köngulóarvef sem glitraði í tunglskininu. Allt var á sínum stað.
Hrífandi ljóðaupplestur
Tónleikunum lauk með tveimur verkum, þar sem hljómsveitin spilaði undir ljóðaupplestri Röggu. Ljóðin voru Hávaðinn í sólinni og Eftir flóðbylgjuna eftir Kristínu Ómarsdóttur.
Tónsmíðarnar voru bæði tilfinningaríkar, en samt mjög ólíkar. Ljúfsár stemningin varpaðist yfir í hljóðfæraleikinn og söng Bjarkar, skapaði þéttofna hljóðmynd með merkingarþrunginni undiröldu. Heildarmynd orða og tóna var sterk, hljóðfæraleikurinn undirstrikaði ljóðin, og eiginlega öfugt líka. Útkoman var afskaplega falleg; Ragga er auðheyrilega vaxandi tónskáld.
Niðurstaða: Fjölbreytt dagskrá, allt frá framúrstefnu yfir í barnalög. Skemmtilegir tónleikar.