Víkingur Heiðar nam við Julliard skóla í New York og var fastagestur á tónleikum í Carnegie Hall. Þá gat hann fengið ódýra nemendamiða sem þýddi að hann var í ódýrari sætum á efri svölum. Í gær steig hann á sviðið í fyrsta sinn.
Uppselt var á tónleikana en Carnegie Hall tekur tæplega þrjú þúsund manns í sæti. Flestir af bestu píanistum sögunnar hafa spilað í salnum, flestir þeirra sem Víkingur hefur sjálfur dáðst að og litið upp til á leið sinni á toppinn. Í salnum var flygill frá Steinway og sons sem beið píanistans á miðju sviðinu.

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðalagi Víkings Heiðars þar sem hann flytur Goldberg-tilbrigði Johanns Sebastiasns Bach alls 88 sinnum í mörgum af glæsilegustu tónleikahúsum heims. Þannig fylgir hann á eftir útgáfu sinni á vegum þýska útgáfufyrirtækisins Deutsche Grammophon.
Það var greinilega stór stund fyrir Víking Heiðar að spila í Carnegie Hall, draumur að rætast og stund sem hann mun aldrei gleyma - eins og hann komst að orði á Instagram-síðu sinni.
Að tónleiknum loknum risu áhorfendur svo til allir sem einn úr sætum, klöppuðu honum lof í lófa og bravó heyrðist kallað eins og er vinsælt á klassískum tónleikum. Víkingur hneygði sig og þakkaði um leið hljóðfærinu fyrir sinn þátt í flutningnum.
Fram undan eru þrennir tónleikar Víkings Heiðars í Hörpu í næstu viku. Fyrsta á sjálfan fertugsafmælisdaginn 14. febrúar, Valentínusardaginn. Í framhaldinu verða tónleikar á föstudagskvöldinu og sunnudagskvöldinu.

Goldberg-tilbrigði Johanns Sebastians Bach þykja eitt stórbrotnasta hljómborðsverk tónlistarsögunnar. Verkið er í formi 30 afar fjölbreyttra tilbrigða við hljómagang þýðrar og fallegrar aríu sem hljómar bæði í upphafi verksins og enda. Úr verður stórbrotið tónlistarlegt ferðalag þar sem fullkomin fágun í byggingu mætir tilfinningalegum krafti, heimspekilegri dýpt og ótrúlegri fingrafimi.
Víkingur Heiðar Ólafsson hefur fyrir löngu skipað sér í flokk fremstu píanista heims og hefur á síðustu árum haft mikil áhrif á tónlistarheiminn, ekki síst í gegnum túlkun sína á verkum Bachs, en árið 2018 gaf Deutsche Grammophon út plötu hans sem helguð var verkum þýska barokkmeistarans. Hlaut hún einróma lof gagnrýnenda og var meðal annars valin plata ársins hjá breska tónlistartímaritinu BBC Music Magazine.
Í kjölfarið var Víkingur útnefndur listamaður ársins hjá öðru breska tónlistartímariti, Gramophone Magazine auk þess að hljóta þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik sem hljóðfæraleikari ársins.