Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarstjórnar Reykjanesbæjar segir að bæjarstjórnin muni funda fljótlega með fulltrúum aðgerðarstjórnarinnar þar sem hún verður upplýst um stöðu vinnunnar að nýrri lögn.
„Við verðum bara að fylgjast með framvindunni og við tökum ákvarðanir eftir því sem áð upplýsingar berast. Við reynum líka að koma nauðsynlegum upplýsingum til íbúa,“ segir hún í samtali við fréttastofu.
„Við verðum hér í þessu verkefni. við stöndum hér í miðri á og það eru allra hendur uppi á dekki og allir með uppbrettar ermar,“
Mikilvægt að íbúar fylgi tilmælum
Tómas Logi Hallgrímsson, fulltrúi svæðisstjórnar björgunarsveita í aðgerðarstjórn almannavarna á Suðurnesjum, segir stíft fundarhald í dag. Vandamálið sé ekki rafmagnið á leið inn í bæinn heldur dreifikerfið innan bæjarins. Það sé mikilvægt að íbúar fylgi tilmælum en að staðan sé annars góð.
Samkvæmt Tómasi er rafbílahleðsla helsta áskorunin. Hann biðlar til fólks að nota hraðhleðslustöðvar. Brimborg er með eina slíka og hefur tekið ákvörðun um að lækka verðið. Það sé til skoðunar hjá fleiri aðilum á svæðinu.
„Við erum í sambandi við þessa aðila og þeir virðast ætla að taka vel í það,“ segir Tómas.
„Staðan á kerfunum er þokkalega góð eins og er. Fjöldahjálparstöð er ekki á dagskrá eins og er.“