Sænskir fjölmiðlar segja að lögregla sé með mikinn viðbúnað á staðnum og hafi girt af svæði í kringum húsið. Talsmaður lögreglunnar segir að maður á þrítugsaldri hafi verið handtekinn en að grunur sé um að fleiri hafi haft aðkomu að árásinni og sé þeirra leitað.
Nágrannar í húsinu, sem er að finna í hverginu Hageby, tilkynntu um málið skömmu eftir miðnætti að staðartíma. Lögregla staðfesti svo í morgun að tveir menn hafi fundist látnir í íbúðinni og sé talið að þeim hafi verið ráðinn bani.
Lögregla hefur áður verið kölluð að húsinu vegna rannsóknar á málum tengdum skipulagðri glæpastarfsemi, en lögregla telur þó enn of snemmt að segja til um hvort málið nú tengist slíku.
Í frétt SVT segir að lögregla hafi einnig girt af svæði skammt frá þar sem vopn, sem kann að vera morðvopnið, hafi fundist.
Norrköping er að finna um 170 kílómetra suðvestur af höfuðborginni Stokkhólmi.