Framkvæmdastjóri Samhjálpar, Valdimar Þór Svavarsson, segir mikla þörf á húsnæði sem henti rekstrinum og að best væri að húsnæðið væri miðsvæðis vegna nálægðar við gistiskýlin á Lindargötu og út á Granda.

Fram kom í umfjöllun um kaffistofuna í páskablaði Samhjálpar að samtökin hefðu nýlega hlotið styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til tveggja verkefna, sem sótt var um í september. Annars vegar um fimm milljóna króna rekstrarstyrkur og hins vegar tveggja milljóna króna styrkur til stefnumótunarvinnu vegna flutnings kaffistofunnar á nýjan stað.
„Við erum að vinna að þessu hörðum höndum. Við erum búin að skoða nokkur húsnæði en þetta er ekki einfalt mál. Staðsetningin skiptir miklu máli því við viljum vera miðsvæðis og það er ekki mörgum húsum til að dreifa. En að sama skapi er þetta orðið mjög aðkallandi verkefni. Núverandi húsnæðið er komið til ára sinna og aðstaðan ekki góð. Það þarf að gera breytingar,“ segir Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar.
Unnið í samráði við borgina
Hann segir þetta verkefni unnið í góðu samráði við Reykjavíkurborg. Það þurfi að huga að ýmsu við valið eins og samlegð við gistiskýlin í borginni en hópurinn sem til þeirra kemur er sá sami og leitar á kaffistofuna.
„Það er kjarnahópurinn og hefur alltaf verið. Þess vegna skiptir máli að staðsetningin sé í takt við hópinn. Að hann geti nýtt sér aðstöðuna,“ segir Valdimar.

Hann segir það á sama tíma ekkert launungarmál að það hafi fjölgað verulega í hópi þeirra sem leita til þeirra af innflytjendum og hælisleitendum.
Fjallað var um það í fréttum sem dæmi í fyrra þegar útlendingalögum breytt og hælisleitendur sviptir þjónustu 30 dögum eftir að þeir fengu endanlega synjun að þeim fjölgaði í þjónustu Samhjálpar, Hjálpræðishersins og annarra félagasamtaka.

„Það er ekkert endilega heppilegt að blanda þessum hópum saman og auðvitað ætti að vera stefna og úrræði fyrir innflytjendamálin og svo stefna og úrræði fyrir heimilislausa sem eru í mörgum tilfellum fólk með áfengis- og vímuefnavanda. Við höfum lagt okkur mikið fram við að aðstoða þann hóp í rúm 40 ár og reyndar alla sem til okkar leita“ segir Valdimar.
Valdimar segir þau taka við öllum góðum ábendingum um húsnæði sem gæti hentað fyrir reksturinn.
Ekkert dagsetur á döfinni
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg styðja þau samtökin í leit sinni að nýju húsnæði en koma ekki með beinum hætti að flutningunum eða leitinni. Í svari til fréttastofu um málið kemur einnig fram að ekki sé á dagskrá að opna dagsetur fyrir heimilislausa karlmenn eins og þeir hafa ítrekað kallað eftir.
Reykjavíkurborg og Samhjálp áttu í samstarfi í vetur um framlengdan opnunartíma kaffistofunnar fyrir gesti neyðarskýla um erfiðasta vetrartímann.

„Þetta var tilraunaverkefni sem varð mjög góð reynsla af, svo það er líklegt að aftur verði gengið til samninga við Samhjálp næsta vetur. Forsvarsfólk Samhjálpar lýsti því á fundi með velferðarráði nýverið að þau eru tilbúin til að ganga aftur til samninga við borgina um slíka vetraropnun,“ segir Hólmfríður Helga Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi á velferðarsviði borgarinnar.
Hún segir að hjá borginni sé unnið að því að þrepaskipta þjónustu við einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
„Markmiðið er að fólk þurfi ekki að reiða sig á neyðarskýli. Lögð er áhersla á að fjölga tímabundnu áfangahúsnæði en það er því ekki stefnt að opnun dagseturs.“