Eldurinn kviknaði rétt fyrir klukkan fjögur í gær í þaki verslunarmiðstöðvarinnar. Slökkvistarfi lauk ekki fyrr en upp úr miðnætti en þá hafði mikill reykur og vatn komist inn í Kringluna. Iðnaðarmenn höfðu verið að brenna tjörupappa á þakinu þar sem eldurinn kviknaði.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir það hafa verið ótrúlegt að sjá hversu vel slökkviliðsmönnum tókst að koma í veg fyrir að eldurinn myndi breiða frekar úr sér.
„Þetta er afmarkað við stórt svæði en hefði svo léttilega getað hlaupið eftir öllu þakinu. Það var virkilega ánægjulegt að sjá það. Núna eru tryggingarfélögin með vettvanginn. Síðan um kvöldið fóru fleiri búðareigendur að koma á svæðið og hjálpa til með að skafa vatn og hver var að vitja sinna búða. Þetta gekk mjög vel og fólk var mjög yfirvegað,“ segir Jón Viðar.
Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað til og allir sem voru á frívakt kallaðir út. Fjöldi þeirra var uppi á þaki að berjast við eldinn en aðrir inni í Kringlunni að sjúga upp vatn og reykræsta.
„Þetta er mikið tjón, mikið vatn sem fer inn í Kringluna. Mikill reykur sem fer niður í búðir og það er mikið af viðkvæmum vörum þarna. Þannig að næstu daga verða tryggingarfélögin og búðareigendur að ná utan um þetta og átta sig á tjóninu,“ segir Jón Viðar.
Hann segir þetta hafa verið mikið högg fyrir búðareigendur sem margir hverjir mættu í gær og vitjuðu eigna sinna. Aðdáunarvert hafi verið að fylgjast með þeim á vettvangi.
„Hversu yfirvegaðir þeir voru og fóru strax í að gera allt sem hægt var að gera. Hjá sumum var kannski afskaplega lítið hægt að gera en fólk áttaði sig á því hvernig staðan var,“ segir Jón Viðar.