Skarphéðinn Jósepsson verkefnastjóri hjá Hrísey Seafood tjáði Vísi það í dag að ferjubilun hefði leitt til þess að fiski hafi verið „stungið til hliðar, sem átti ekki að vera stungið til hliðar“, á meðan fyrirtækið notaðist við eigin báta til að flytja fisk frá eyjunni. Fiskur hafi síðan safnast upp án þess að gengið hafi verið frá honum.
Fyrirtækið opnar fiskvinnslu sína aftur í dag eftir úrbætur í samvinnu við Matvælastofnun.
„Hann vísar til þess að samgöngur séu í lamasessi sem ég vil bara harðlega mótmæla,“ segir Hilmar Stefánsson forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni.
Sjá einnig: Lokun Hríseyjar seafood: Fiskur gleymdist þegar ferjan bilaði
Ekki óvænt bilun
„Þarna gengur ferjan níu til ellefu sinnum á dag. Ferjan var á þessum tíma í slipp og það lá alveg fyrir, og allir eyjaskeggjar vissu að stóð til. Síðan er önnur ferja, Grímseyjarferjan, sem gengur líka. Það lá líka fyrir að hún væri á leiðinni í slipp. Það vissu allir sem vildu vita.
Frágangur Hríseyjar eigi því ekki rót sína að rekja til samgangna.
„Þetta var ekki óvænt bilun, þetta var bara slippur. Það hitti svona á í eina og hálfa viku, sem er óheppilegt, en þetta var ekkert óvænt.“
„Þetta mál er af einhverjum öðrum toga en af þessum sökum. Þetta var bara skammur tími og ég held að allir sem til þekkja viti að þetta sé ekki út af einhverjum ferjurekstri. Menn höfðu bara átt að vera búnir að koma þessu út í síðustu ferð, svo líða tíu dagar og svo hreinsast það út. Ég held að þetta sé einhver hvítþvottur,“ segir Hilmar.