Lífið

Kaleo fangar hræði­legan veru­leika

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Jökull Júlíusson, söngvari hljómsveitarinnar Kaleo, segir skotárásirnar í Bandaríkjunum hafa haft mikil áhrif á alla í hljómsveitinni.
Jökull Júlíusson, söngvari hljómsveitarinnar Kaleo, segir skotárásirnar í Bandaríkjunum hafa haft mikil áhrif á alla í hljómsveitinni. Kaleo

Íslenska hljómsveitin Kaleo gaf út í nótt lagið USA Today, lag sem tekur á byssuárásum í Bandaríkjunum og ofbeldi tengdum skotvopnum. 

Lagið var samið og framleitt af Jökli Júlíussyni, Shawn Everett og Eddie Spear. Fram kemur í fréttatilkynningu frá sveitinni að lagið sé gefið út í kjölfar skotárásarinnar á Donald Trump þar sem saklaus áhorfandi lét lífið. 

Fyrir Kaleo þá er lagið ádeila á síendurteknar skotárásir sem eiga sér stað í Bandaríkjunum. Kaleo mun jafnframt gefa hluta af tekjum lagsins USA Today til samtakanna Everytown sem eru samtök sem berjast gegn skotrárásum og ofbeldi tengdum skotvopnum. 

„Þetta lag fangar þann hræðilega veruleika skotárása og ofbeldis sem við höfum upplifað undanfarinn áratug í Bandaríkjunum, landi þar sem við höfum búið og túrað. Þessar skotárásir hafa haft mikil áhrif á okkur alla. Nú síðast tilgangslaus skotárás í Pennsylvaníufylki þar sem saklaus maður lét lífið,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo.

Jökull segir að hljómsveitin vonist til þess að „mikilvægar og nauðsynlegar“ breytingar verði gerðar á lögum um skotvopn í Bandaríkjunum.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu mannsins sem skotinn var til bana um helgina og allra annara sem eiga um sárt að binda vegna tilgangslaus ofbeldis um heim allan,“ segir Jökull að lokum.

Lagið má heyra í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.