Starfsmaður kanadíska liðsins er sakaður um njósnir eftir að hafa flogið dróna yfir æfingasvæði Nýja-Sjálands.
Kvennalið þjóðanna mætast einmitt í fyrstu umferð fótboltakeppni Ólympíuleikanna á morgun en leikurinn fer fram á Stade Geoffroy-Guichard leikvanginum í Saint-Étienne. Það var einmitt þar sem dróninn var á flugi.
Olympic spying claim: New Zealand report Canada for flying drone over football training https://t.co/f8x20QuiPh
— Guardian news (@guardiannews) July 24, 2024
Ólympíunefnd Nýja-Sjálands segist hafa fengið afsökunarbeiðni frá Kanada og Ólympíunefnd Kanada segist vera bæði í áfalli og mjög vonsvikin vegna atviksins. Kanadamenn segjast líka hafa hafið eigin rannsókn innanhúss.
Kanada vann gullið í fótbolta kvenna á síðustu leikum. Í liðinu í ár er meðal annars hin kanadíska-íslenska Cloe Eyja Lacasse sem fékk íslenskt vegabréf þegar hún spilaði með ÍBV.
„Starfsmenn liðsins okkar tilkynntu atvikið strax til lögreglu sem fann þann sem stýrði drónanum. Þá kom í ljós að þar var á ferðinni starfsmaður hjá kanadíska kvennalandsliðinu í knattspyrnu og hann var handtekinn,“ sagði í yfirlýsingu frá Ný-Sjálendingum.
Ólympíunefnd Nýja-Sjálands hefur farið með málið alla leið fyrir siðanefnd IOC og kallar einnig eftir skýrslu frá Kanadamönnum sjálfum.