Umfjöllun um bílakaup verðandi forsetahjóna hafa vakið mikla athygli eftir að Brimborg ákvað í vikunni að auglýsa þau á Facebook. Forstjóri umboðsins svaraði RÚV í gær að umboðið fengi oft að birta slíkar myndir. Þau hjón hafi notið sömu kjara við kaupin og langtímaviðskiptavinir.
Halla sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í gær um að ljósmyndin hefði birst án sinnar vitundar og hún óskað eftir að hún yrði fjarlægð. Hjónunum hafi boðist staðgreiðsluafsláttur.
Halla sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í gær um að ljósmyndin hefði birst án sinnar vitundar og hún óskað eftir að hún yrði fjarlægð. Hjónunum hafi boðist staðgreiðsluafsláttur.
Forstjóri Brimborgar sendi svo yfirlýsingu í morgun þar sem hann baðst velvirðingar á myndbirtingunni sem sé misskilningur. Verðandi forsetahjón hafi fengið sömu kjör og kaupendur sem uppfylli sömu skilyrði.
Í fréttum RÚV í gær sagði Gísli Jón Bjarnason sölustjóri Brimborgar svo eftirfarandi um kjörin:
„Hún fékk góð kjör, við erum alltaf með fyrir góða Volvo-kúnna og köllum þetta skyldmennakjör.“
Tilgreindi ekki afsláttinn
Fréttastofa óskaði í morgun eftir upplýsingum um hversu mikill afsláttur Brimborgar hefði verið. Halla svaraði í hádeginu og tilgreindi verðið bílsins en ekki afsláttinn. Hún árettaði að hún ætli ekki að tjá sig fyrr en hún hefur tekið við embætti.
Á vef Brimborgar er verð bílsins frá tæpum sjö til átta komma fjögurra milljóna króna. Forstjóri Brimborgar hefur ekki gefið upp afsláttinn.
Forstjórinn er meðal hundrað gesta sem Halla hefur boðið við innsetningarathöfn sína í næstu viku. Athygli hefur vakið að í viðtali hefur forstjórinn nefnt að hann sé einungis kunningi hennar.
Sérfræðingur í siðfræði sagði mikilvægt í hádegisfréttum að algjört gagnsæi ríki í málinu, greiði fyrir greiða sé ekki við hæfi hjá tilvonandi forseta.
Guðmundur Heiðar Helgason sérfræðingur í almannatengslum er á sama máli og telur að Halla þurfi að stíga fram.
„Svörin og allar yfirlýsingar sem hafa komið frá Höllu hafa hingað til vakið upp fleiri spurningar heldur en svarað. Þetta mál gerist fyrir þremur dögum síðan og við erum ennþá að tala um þetta og boltinn heldur áfram að rúlla.“
Þá telur Guðmundur að Halla sé að gera mistök með því að segjast ekki ætla að veita viðtal fyrr en hún tekur við embættinu.
„Mín skoðun er sú að hún ætti að veita viðtal og klára þetta tiltekna mál. Hún er annars að gefa málinu framhaldslíf sem mun lita fyrstu dagana hennar í embætti.“
En hvað þarf verðandi forseti að gera í málinu?
„Svara spurningum, vera gegnsæ og reyna að byggja upp traust áður en þú stígur inn á Bessastaði.“