Málið hefur vakið upp svo mikið fjölmiðlafár að meira að segja Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er farinn að nota það í pólitískum tilgangi.
Khelif er samt kona, hún er alin upp sem kona, hefur alltaf keppt sem kona og er skráð sem kona í vegabréfi sínu. Alþjóðaólympíusambandið gerði heldur enga athugasemd við þátttöku hennar í kvennaflokki á leikunum í París.
Keppnin í skugganum
Hnefaleikakeppni Ólympíuleikanna í París hefur verið í skugganum á þessu máli eftir að ítalska hnefaleikakonan Angela Carini bað um að bardagi sinn á Ólympíuleikunum gegn Khelif yrði stöðvaður eftir aðeins 46 sekúndur.
„Ég hef aldrei verið slegin svona áður,“ sagði Carini eftir bardagann og neitaði að þakka þeirri alsírsku fyrir bardagann. Hún hefur seinna beðist afsökunar á því.
Upphaf málsins má rekja til þeirra ákvörðunar Alþjóðahnefaleikasambandsins að reka Khelif úr keppni á heimsmeistaramótinu í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur HM.
Forvitnuðust um hina alsírsku Khelif
AP fréttastofan fjallar um málið og forvitnaðist meira um hina alsírsku Khelif.
Kringumstæðurnar við brottvísun hennar voru mjög óvenjulegar og Khelif talaði sjálf um samsæri gegn sér. Það er margt sem rökstyður þá fullyrðingu eins og sjá má í grein AP. Khelif hafði nefnilega keppt mörgum sinnum án þess að nokkur gerði athugasemd við þátttöku hennar.
Það var ekki fyrr en hún vann rússnesku hnefaleikakonuna Azalia Amineva á umræddu HM sem stjórnarmenn Alþjóðahnefaleikasambandsins risu upp og vísuðu henni úr keppni.
Rússarnir ráða öllu
Svo vill nú til að Rússinn Umar Kremlev ræður ríkjum hjá Alþjóðahnefaleikasambandinu og aðalstyrktaraðili þess er rússneski eldsneytis birgðarsalinn Gazprom. Sambandinu er nánast stjórnað frá Rússlandi.
Kremlev hefur sjálfur tjáð sig um málið síðan Carini hætti keppni og ætlar að borga þeirri ítölsku jafnmikið og verðandi Ólympíumeistari fær í verðlaunafé.