Körfubolti

Var að fara að spila fyrsta lands­leikinn fyrir Ís­land þegar hann sleit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Matasovic er einn mikilvægasti leikmaður Njarðvíkurliðsins og verður sárt saknað.
Mario Matasovic er einn mikilvægasti leikmaður Njarðvíkurliðsins og verður sárt saknað. Vísir/Hulda Margrét

Körfuboltamaðurinn Mario Matasovic fékk íslensk vegabréf í sumar en var samt ekki með á Evrópumótinu í sumar. Hann var hins vegar valinn í hópinn fyrir síðustu leiki íslenska landsliðsins.

Ekkert varð þó af því að Mario spilaði sinn fyrsta landsleik í þessum glugga því hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik Njarðvíkur og KR í Bónusdeild karla stuttu fyrir landsleikjagluggann.

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson staðfesti það í nýjasta þættinum að Boltinn lýgur ekki að Mario Matasovic átti að vera í landsliðshópnum sem fór út til Ítalíu í síðasta landsliðsverkefni.

Í þættinum var Logi Gunnarsson til viðtals um landsliðið, Njarðvík og Bónusdeildina.

„Hann var náttúrulega að fara til Ítalíu, hann var búinn að fá kallið að fara út og búið að velja hann með símtali þannig að hann var mjög spenntur. Þess vegna er þetta enn þá leiðinlegra. Hann var á leiðinni til Ítalíu að spila sína fyrstu landsleiki,” sagði Logi Gunnarsson við Sigurð Orra Kristjánsson.

Mario Matasovic er 32 ára gamall og hefur spilað með Njarðvík frá árinu 2018. Í vetur var hann með 15,4 stig og 7,9 fráköst í leik áður en hann meiddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×