Saga gengst nú undir allsherjaryfirhalningu eftir að Háskóli Íslands festi kaup á húsinu. Stefnt er að því að menntavísindasvið hefji þar starfsemi innan nokkurra vikna.
Jón Atli Benediktsson rektor og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra undirrituðu greinargerð um nýtt hlutverk hússins við hátíðlega athöfn í dag og smeygðu henni, ásamt hornsteininum, á sinn stað. Rektor sjálfur tók svo að sér að múra fyrir. Að lokinni athöfn gengu gestir upp á áttundu hæð og þáðu kaffi á Grillinu.

Garðar Halldórsson, arkitekt og fyrrverandi húsameistari ríkisins, var hæstánægður með heimsóknina í Sögu í dag. Hann er jafnframt sonur Halldórs H. Jónssonar, arkitektsins að Sögu.
„Ég vann með föður mínum við norðurhluta byggingarinnar en er ekki arkitekt að þeim hluta sem við stöndum í nú,“ segir Garðar.
Aðspurður segist hann ekki hafa náð að skoða húsakynnin
„Mér sýnist vel hafa verið staðið að verki utanhúss. Ég er lítið búið að skoða innanhúss, ég er enn spenntari að skoða þetta eftir svona tvær, þrjár vikur hérna inni. En ég er mjög ánægður með að Háskólinn skuli hafa fengið þetta og að þessu húsi skuli hafa verið sýndur slíkur sómi eins og gert hefur verið.“
Þetta lofar semsagt góðu?
„Lofar mjög góðu, ég er mjög spenntur.“