SAS er annað flugfélagið á skömmum tíma sem bætir höfuðstað Grænlands við sem áfangastað. Bandaríska flugfélagið United Airlines boðaði nýlega að það hæfi áætlunarflug milli New York og Nuuk næsta sumar. United hyggst fljúga tvisvar í viku frá Newark-flugvelli en aðeins yfir sumartímann, frá 14. júní til 24. september 2025.
Þá hefur danska ferðaskrifstofan Ruby Rejser auglýst 23 ferðir í leiguflugi milli Álaborgar og Nuuk næsta sumar, á tímabilinu frá 12. júní til 28. ágúst. Flogið verður með danska leiguflugfélaginu Airseven en það rekur þrjár þotur af gerðinni Boeing 737-800.
Þessi aukni áhugi erlendra flugfélaga á Grænlandi tengist nýjum alþjóðaflugvelli í Nuuk en hann verður formlega opnaður umferð eftir tæpar fjórar vikur, þann 28. nóvember næstkomandi. Þá verður 2.200 metra löng flugbraut tekin í notkun, nægilega löng fyrir algengustu farþegaþotur. Til þessa hafa aðeins sérhannaðar minni flugvélar fyrir stuttar brautir, eins og Dash 8 Q200, getað lent í Nuuk en gamla flugbrautin þar var aðeins um 900 metra löng.

Undanfarna tvo áratugi hafa tvö flugfélög sinnt áætlunarflugi til Grænlands að einhverju marki; Air Greenland, flugfélag landsstjórnarinnar, og Icelandair, áður Flugfélag Íslands. Auk þeirra hefur Norlandair boðið upp á flug milli Akureyrar og Scoresby-sunds á austurströnd Grænlands.
Besta leiðin til að ferðast milli Bandaríkjanna og Grænlands hefur til þessa legið um Ísland en Icelandair hefur boðið upp á flug til fjögurra til sex áfangastaða á Grænlandi. Með beinu flugi United Airlines milli New York og Nuuk býðst mun fljótlegri leið til að komast á milli landanna en flugtíminn þar á milli er um fjórar klukkustundir.
Á þessu tölvugerða myndbandi flugvallafélags Grænlands geta menn séð fyrir sér hvernig verður að lenda á nýju flugbrautinni og fara um nýju flugstöðina. Athyglisvert er að þar gera Grænlendingar ráð fyrir stórri þotu frá Icelandair en félagið hefur undanfarin ár einkum nýtt 37 sæta Dash 8 Q200-vélar til Grænlandsflugsins.