Íslenski boltinn

Stefan ætlar að koma Kefla­vík í deild þeirra bestu

Sindri Sverrisson skrifar
Stefan Ljubicic í leik með Keflavík sumarið 2023.
Stefan Ljubicic í leik með Keflavík sumarið 2023. Vísir/Diego

Stefan Alexander Ljubicic er snúinn aftur heim til Keflavíkur og ætlar að taka slaginn með liðinu í Lengjudeildinni í fótbolta næsta sumar.

„Ég er virkilega spenntur og ánægður með að koma heim. Ég vildi koma heim í Keflavík og koma mínu uppeldisfélagi upp í deild þeirra bestu, þar sem við eigum heima,“ segir Stefan á Facebook-síðu Keflvíkinga þar sem greint er frá komu hans.

Samningur Stefans, sem er 25 ára sterkur og stæðilegur framherji, gildir út tímabilið 2026.

Stefan kemur til Keflvíkinga frá Skövde eftir að hafa leikið með liðinu í næstefstu deild Svíþjóðar.

Hann lék með Keflavík í Bestu deildinni í fyrrasumar og skoraði þá þrjú mörk. Áður lék hann einnig með KR, HK og Grindavík í efstu deild, eftir að hafa farið í atvinnumennsku til Englands og spilað með yngri liðum Brighton og sem lánsmaður í ensku utandeildinni.

Alls hefur Stefan spilað 81 leik í efstu deild hér á landi og skorað í þeim þrettán mörk. Leikirnir næsta sumar verða hans fyrstu í næstefstu deild á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×