Viðskipti innlent

Sekta Festi um 750 milljónir vegna N1-samrunans

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Festi á og rekur N1, Elko og Krónuna.
Festi á og rekur N1, Elko og Krónuna. vísir/egill

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Festi hf. um 750 milljónir vegna samkeppnislagabrota í tengslum við samruna félagsins og N1 hf. Fólust brotin í því að Festi virti ekki skilyrði sem gerð voru í sátt við eftirlitið, svo sem um sölu verslana og samstarf við keppinaut.

Ákvörðun eftirlitsins er birt í dag og í tilkynningu segir að brotin séu álitin alvarleg. Í sátt Festi við eftirlitið viðurkennir fyrirtækið annars vegar brot á skuldbindingum í eldri sátt í samrunamáli og hins vegar brot á ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingagjöf við rannsókn Samkeppniseftirlitsins í sama samrunamáli.

Eftirlitið segir forsögu málsins vera rannsókn á samruna félaganna, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að samruni N1 og Festi myndi raska samkeppni á dagvöru- og eldsneytismörkuðum. Í því ljósi bauð Festi fram marvísleg skilyrði til að koma í veg fyrir hin samkeppnislegu vandamál og afstýra þannig ógildingu Samkeppniseftirlitsins. 

Í ákvörðun SKE kemur fram að í þessum skilyrðum hafi falist að Festi skuldbatt sig til að selja ýmsar verslanir, svo sem þjónustustöð N1 á Hvolsvelli. Málamyndagerningur hafi til að mynda verið gerður um sölu þeirrar verslunar. Þá viðurkenndi Festi brot sem fólst í samstarfi við verslunina Samkaup. 

Að tillögu Festi var skipaður sérstakur eftirlitsaðili, „óháður kunnáttumaður“, til þess að tryggja það að fyrirtækið myndi fara að þessum skilyrðum. Honum hafi síðan ekki verið veittur aðgangur að nauðsynlegum upplýsingum sem hann hafi óskað við störf sín.

Önnur skilyrði voru brotin, sem tengdust því að vernda og efla samkeppni á eldsneytismarkaði. Þá viðurkenndi Festi brot gegn ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu í tengslum við rannsókn samrunans. 

Taldi Samkeppniseftirlitið hæfilegt að Festi greiddi 750.000.000 króna í stjórnvaldssekt og hefur fyrirtækið fallist á það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×