Erlent

Rann­saka ekki ljós­leiðara­skemmdir sem saka­mál enn­þá

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamaður vinnur við að leggja ljósleiðara nærri Espoo í Finnlandi í október. Ljósleiðarastrengur skemmdist nærri borginni í gær.
Verkamaður vinnur við að leggja ljósleiðara nærri Espoo í Finnlandi í október. Ljósleiðarastrengur skemmdist nærri borginni í gær. AP/VEsa Moilanen/Lehtikuva

Finnska lögreglan segist ekki rannsaka skemmdir á ljósleiðara sem olli umfangsmiklu netleysi sem sakamál að svo stöddu. Ljósleiðarinn fór í sundur á tveimur stöðum en fjarskiptafyrirtæki segir að á öðrum staðnum hafi hann skemmst við framkvæmdir.

Skemmdir urðu á ljósleiðaranum á tveimur stöðum í dreifbýli á milli Espoo og Vihti í sunnanverðu Finnlandi síðdegis í gær. Viðgerðir stóðu enn yfir í morgun. Um sex þúsund manns og hundrað fyrirtæki voru netsambandslaus vegna skemmdanna, að sögn AP-fréttastofunnar.

Grunsemdir kviknuðu strax um skemmdarverk en tveir sæstrengir voru skemmdir í Eystrasalti í síðasta mánuði. Þá hafa viðvarandi truflanir verið á staðsetningarkerfum við Finnland og á Eystrasalti undanfarin misseri.

Lulu Ranne, samgöngu- og fjarskiptaráðherra Finnlands, sagði stjórnvöld taka skemmdirnar alvarlega og að þau væru í sambandi við sænska fjarskiptafyrirtækið GlobalConnect sem á ljósleiðarann um rannsókn. Ljósleiðarinn liggur frá Svíþjóð til FInnlands.

Í yfirlýsingu sem finnska lögreglan sendi frá sér í morgun sagði hún að þrátt fyrir fréttir fjölmiðla um það þá væri engin sakamálarannsókn hafin á skemmdunum á þessari stundu. Aftur á móti væri ekki útilokað að hún hæfist síðar.

Fulltrúi netfyrirtækisins Elisa segir finnska ríkisútvarpinu YLE að skemmdirnar við Vihti hafi orðið við slys sem tengdist byggingarframkvæmdum. Hann sagðist þó engar upplýsingar hafa um skemmdirnar við Espoo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×