Erlent

Lýsir yfir her­lögum í Suður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, segist ætla að uppræta öfl sem séu hliðholl Norður-Kóreu.
Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, segist ætla að uppræta öfl sem séu hliðholl Norður-Kóreu. AP/Kim Hong-Ji

Forseti Suður-Kóreu lýsti yfir neyðarherlögum í dag. Hann sakar stjórnarandstöðu landsins sem er með meirihluta á þingi um að ganga erinda Norður-Kóreu og að binda hendur ríkisstjórnar hans.

Yoon Suk Yeol, forseti, lýsti þessu yfir í sjónvarpsávarpi og hét þess jafnframt að uppræta „öfl hliðholl Norður-Kóreu“ og verja stjórnskipun landsins, að sögn AP-fréttastofunnar.

Bæði Þjóðaraflsflokkur Yoon og Lýðræðisflokkurinn, sem er með meirihluta á þingi, sögðu yfirlýsingu forsetans stangast á við stjórnarskrá og að þeir hygðust koma í veg fyrir að hún tæki gildi.

Forsetinn hefur átt erfitt með að koma stefnumálum sínu í framkvæmd þar sem íhaldssami Þjóðaraflsflokkur hans er ekki með meirihluta á þingi. Vinsældir Yoon hafa farið dalandi undanfarna mánuði.

Lýðræðisflokkurinn hefur stöðvað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Yoon. Þá hefur forsetinn hafnað því að óháð rannsókn fari fram á hneykslismálum sem tengjast eiginkonu hans og hátt settum embættismönnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×