„Það er verið að krossfesta mig hérna og ég vil bara að allir viti að ég er sá listamaður sem vorkennir sér mest í þessu máli, að missa af listamannalaunum,“ sagði Halldór við Elínu Margréti Böðvarsdóttur fréttakonu Stöðvar 2. Rétt um 250 af þeim 1300 sem sóttu um listamannalaun fá úthlutun úr launasjóði listamanna á næsta ári og hefur vakið mikla athygli hvaða listamenn hafa fengið úthlutun og hverjir ekki.
„Hugmyndin er að ef krossfestingin gengur vel þá mun ég rísa hér upp sem markaðshyggjuhöfundur, sem höfundur á frjálsum markaði og gangist algjörlega kapítalistamönnum á hönd,“ sagði Halldór Armand á Stöð 2 í gær. Hann gaf út bók sína Mikilvægt rusl fyrir þessi jól og seldi að sjálfsögðu eintök á Röntgen í gærkvöldi.
Heldurðu að þú þurfir kannski á næsta ári að sækja um í sviðslistapottinn?
„Ég mun auðvitað halda áfram að sækja um allt sem er í boði og reyna að komast aftur á ríkisspenann en kannski reyndar líður mér það vel í kapítalismanum hingað til að það getur vel verið að ég haldi mig bara þar,“ segir Halldór. Hann hefur þegar gert ráðstafanir.
„Ég er að gefa út sjálfur nýju bókina mína þannig ég er búinn að gerast kapítalisti, kaupahéðinn og bókin mín er hér til sölu á þessum bar og í öllum helstu bókabúðum og hjá sjálfum mér. Þannig hann klæðir mig vel finnst mér kapítalisminn til þessa.“