Cucurella notaði skóna aðeins fyrstu tólf mínútur leiksins en eftir að hafa runnið til í annað sinn, sem leiddi til þess að Tottenham komst í 2-0, hljóp hann strax út fyrir völlinn og skipti um skó.
Bæði mörk Tottenham höfðu komið eftir að Cucurella rann til, en eftir að hann fór í aðra skó gekk Chelsea betur og liðið endaði á að vinna 4-3 sigur í stórskemmtilegum leik. Cucurella átti meðal annars sendinguna á Jadon Sancho sem skoraði fyrsta mark Chelsea með frábærum hætti.
Myndin fjarlægð
Cucurella birti mynd á samfélagsmiðlum eftir leikinn þar sem sjá mátti að skórnir sem hann hóf leikinn í voru komnir ofan í ruslaflötu. Bakvörðurinn beitti einnig orðagríni og skrifaði: „Þessi rann [e. slipped] okkur næstum því úr greipum. En ég er stoltur af þessari mögnuðu liðsframmistöðu til að snúa stöðunni okkur í hag.“
Myndin af skónum í ruslatunnunni var hins vegar fljótt fjarlægð úr Instastory hjá Cucurella, enda sjálfsagt ekki beinlínis góð auglýsing fyrir Puma, framleiðanda skónna sem Cucurella notar.
🗑️👟 Cucurella on Instagram: “Sorry, Blues!”. pic.twitter.com/DJ4aApL0xv
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) December 8, 2024
Cole Palmer skoraði úr tveimur vítaspyrnum og Enzo Fernández skoraði sitt þriðja mark í fjórum síðustu leikjum, áður en Son Heung-min minnkaði muninn í blálokin.
Chelsea hefur þar með unnið fimm leiki í röð, ef horft er á allar keppnir, og ekki tapað í síðustu sjö deildarleikjum, eða síðan liðið tapaði 2-1 gegn Liverpool á Anfield.
Chelsea er nú í 2. sæti deildarinnar með 31 stig, fjórum stigum á eftir Liverpool sem á leik sinn við Everton til góða eftir að honum var frestað um helgina.