Lífið

Bjargar deginum að komast að­eins úr klefanum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Benedikt Már Ingibjargarson segir það mikilvægt að fá að komast úr klefanum og af ganginum yfir daginn.
Benedikt Már Ingibjargarson segir það mikilvægt að fá að komast úr klefanum og af ganginum yfir daginn. Vísir/Sigurjón

Fangar á Hólmsheiði eru á fullu þessa dagana að framleiða, mála og búa til jólaskraut sem þeir selja. Fangi segir það gríðarlega mikilvægt að fá að gera eitthvað á daginn annað en að hanga inni í klefa.

Verkefnið Fangaverk hófst fyrir nokkrum árum og þar fá fangar tækifæri til að hanna og framleiða vörur. Það er sérstaklega mikið að gera núna um jólin þegar verið er að búa til ýmislegt jólaskraut.

Hér má sjá nokkra af þeim gripum sem fást á vefsíðu Fangaverks.Vísir/Sigurjón

„Það hjálpar að komast af ganginum og hitta hina fangana. Vera að gera eitthvað á daginn annað en að vera inni í klefa eða á sama ganginum. Það gengur ekki,“ segir Benedikt Már Ingibjargarson, fangi á Hólmsheiði.

Það er gott að prófa eitthvað nýtt?

Já, það bjargar alveg deginum. Það gerir það,“ segir Benedikt. Hann sýnir okkur svo hvað fangarnir eru að föndra í klippunni hér fyrir neðan. 

Afurðirnar eru seldar á vef verkefnisins, fangaverk.is. Ágóðinn fer í að stækka verkefnið enn frekar. Nýlega var keyptur þrívíddarprentari sem notaður er í fangelsinu á Litla-Hrauni.

„Það er rosalega gaman að sjá stemninguna í kringum þetta, sérstaklega á þessum tíma fyrir jólin. Hvað þetta hefur aukist og er alltaf að verða meira og meira. Þetta er klárlega mjög mikilvægt úrræði fyrir fangelsin og fangana,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga.

„Þetta gefur þeim svo mikið, að vakna á morgnana og hafa eitthvað fyrir stafni. Þeir sjá mikið um þetta sjálfir. Þeir steypa þetta, mála og gera allt tilbúið fyrir sölu,“ segir Þórir Guðlaugsson, varðstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, og Þórir Guðlaugsson, varðstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði.Vísir/Sigurjón





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.