Þetta segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og fulltrúi í fagráði um dýravelferð, um nýtt veiðileyfi Hvals hf. en fréttastofa greindi frá því fyrr í kvöld að veiðileyfið endurnýjast sjálfkrafa árlega og getur því að óbreyttu verið í gildi í áraraðir og er ótímabundið. Sambærilegt ákvæði um endurnýjun hefur ekki verið í fyrri leyfisveitingum Hvals samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu.
Henry tekur fram að þetta sé nýmæli í leyfinu sem sé í þversögn við fyrrgreinda vörn Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, sem veitti hvalveiðileyfið á sama tíma og Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins höfðu hafið stjórnarmyndunarviðræður.
Þessir þrír flokkar eru gegn hvalveiðum, telurðu að það hafi haft einhver áhrif?
„Það virðist nú hafa verið þannig að þetta hafi staðið til áður en þessar viðræður fóru í gang. Það er alveg augljóst að það hafi ekki hjálpað til og það hafi þurft að gefa aðeins í.“
Starfshópur sem vinnur að því að rýna lagaumgjörð hvalveiða er nú að störfum og á að skila til stjórnvalda skýrslu með tillögum að leiðum til úrbóta. Valkostir þar eiga bæði að taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við þeim til framtíðar.
Spurður hvað hann telji að taki nú við segir Henry:
„Það sem ég held að gerist næst er að nýr ráðherra muni leita allra leiða til að ógilda þetta leyfi. Ég hugsa að fleiri átti sig á því hvað það er margt bogið við þetta ferli allt saman.“