Enski boltinn

Jackson komst upp fyrir Eið Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði 21 mark í opnum leik í fyrstu 50 leikjum sínum fyrir Chelsea en Nicolas Jackson hefur skorað 23 mörk í fyrstu fimmtíu leikjum sínum.
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði 21 mark í opnum leik í fyrstu 50 leikjum sínum fyrir Chelsea en Nicolas Jackson hefur skorað 23 mörk í fyrstu fimmtíu leikjum sínum. Getty/Tom Shaw/Darren Walsh

Nicolas Jackson hefur mátt þola sinn væna skammt af gagnrýni á fyrstu tímabilum sínum með Chelsea en meira að segja hans helstu gagnrýnendur eru nú að draga í land.

Þessi markheppni framherji raðar nú inn mörkum og er ein af ástæðunum fyrir frábæru gengi Chelsea liðsins á undanförnu.

Jackson hefur nú skorað níu mörk í fimmtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og er að sanna sig sem toppframherji í deildinni.

Jackson skoraði í sigri á Brentford um síðustu helgi og það var hans fimmtugasti leikur fyrir Chelsea.

Með því að skora 23 mörk í þessum fimmtíu leikjum þá komst hann upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen.

Eiður var fyrir tímabilið í þriðja sæti yfir flest mörk í fyrstu fimmtíu úrvalsdeildarleikjum fyrir Chelsea. Hér erum við þó að tala um mörk í opnum leik það er vítamörk eru ekki tekin með.

Efstu tveir eru Diego Costa (30 mörk) og Jimmy Floyd Hasselbaink (27 mörk).

Eiður skoraði á sínum tíma 21 mark í fyrstu fimmtíu leikjum sínum eftir að Chelsea keypti hann frá Bolton sumarið 2000.

Eiður skoraði 10 mörk í 30 deildarleikjum á fyrsta tímabilinu og var kominn með 11 mörk í 20 leikjum á tímabili númer tvö þegar hann komst í fimmtíu leikja hópinn.

Eiður gæti misst annan leikmann upp fyrir sig ef Cole Palmer skorar í næsta leik sem verður hans fimmtugasti samkvæmt tölfræði Opta sem sjá má hér fyrir neðan.

Chelsea mætir Everton á Goodison Park í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×