Lögreglu barst tilkynning um bilunina um eittleytið í gær að staðartíma frá finnska fyrirtækinu Finngrid sem sér um dreifikerfi rafmagns í Finnlandi. Fram kemur í tilkynningu frá finnska lögregluembættinu að rannsókn sé hafin í samvinnu við landhelgisgæsluna og að sérstaklega sé verið að kanna möguleg tengsl erlends flutningaskips við truflunina.
Petteri Orpo forsætisráðherra sagði í færslu á samfélagsmiðlum að bilunin kæmi ekki til með að hafa áhrif á rafmagnsforða Finna yfir hátíðarnar.
Arto Pahkin, framkvæmdastjóri Finngrid, sagði í samtali við ríkisútvarp Finna að mögulega væri um skemmdarverk að ræða. Tvö skip voru í nágrenni sæstrengsins þegar truflun varð. Hann tjáði sig ekki um nöfn eða uppruna skipanna. Annað skipanna sigldi yfir sæstrenginn akkúrat þegar tengingin rofnaði.
Fram kemur í umfjöllun finnska ríkisútvarpsins að olíuflutningaskip að nafni Eagle S, sem siglir undir fána Cook-eyja, hafi verið í nágrenni strengsins og hafi greinilega hægt á ferð sinni um það leyti sem tekið var eftir trufluninni. Skip landhelgisgæslunnar fylgdi flutningaskipinu út fyrir Porkkalahöfða snemma í morgun. Samkvæmt MarineTraffic var skipið á leið frá Pétursborg til Egyptalands.
Í nóvember rofnuðu tveir sæstrengir í Eystrasalti og talið var að skemmdarverk hefðu verið unnin á þeim. Annar lá á milli Svíþjóðar og Lithánes og hinn á milli Finnlands og Þýskalands. Fyrirtækin sem ráku strengina sögðu það nær ómögulegt að þeir hefðu farið í sundur án utanaðkomandi krafta og að ósennilegt væri að veiðarfæri eða akkeri hefðu skemmt strengina óvart.