Enski boltinn

„Ég var að skjóta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matheus Cunha hefur skorað tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Matheus Cunha hefur skorað tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur. getty/Jack Thomas

Matheus Cunha, leikmaður Wolves, segist hafa verið að skjóta þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu gegn Manchester United í gær.

Cunha kom Wolves yfir á 58. mínútu þegar hornspyrna hans sveif yfir André Onana, markvörð United, og í netið. Hann hafði reynt að skora úr annarri hornspyrnu í fyrri hálfleik. 

„Ég var að skjóta. Við æfum þetta. Ég var heppinn í seinna skiptið og skoraði,“ sagði Cunha eftir leikinn á Molineux í gær. Hann lagði svo upp seinna mark Wolves sem Hwang Hee-Chan skoraði í uppbótartíma.

United hefur fengið á sig mark beint úr hornspyrnu í tveimur af síðustu þremur leikjum sínum. Son Heung-min skoraði beint úr horni í 3-4 sigri Tottenham á United í átta liða úrslitum deildabikarsins í síðustu viku. Þá stóð Altay Bayindir í marki Rauðu djöflanna.

Cunha hefur verið drjúgur fyrir Wolves að undanförnu og skorað sex mörk í síðustu átta deildarleikjum sínum fyrir liðið.

Hinn 25 ára Cunha kom til Wolves frá Atlético Madrid í fyrra, fyrst á láni en Úlfarnir keyptu hann svo þarsíðasta sumar. Hann hefur skorað 24 mörk í 55 leikjum fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×