Sport

Searle úr leik en Aspinall kláraði sitt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nathan Aspinall er á leið í 16-manna úrslit á HM í pílukasti í dag.
Nathan Aspinall er á leið í 16-manna úrslit á HM í pílukasti í dag. James Fearn/Getty Images

Ryan Joyce, Ricardo Pietreczko og Nathan Aspinall tryggðu sér sæti í 16-manna úrslitum heimsmeistaramótsins í pílukasti í dag.

Nafnarnir Ryan Joyce og Ryan Searle mættust í fyrstu viðureign dagsins. Searle situr í 20. sæti heimslistans, 13 sætum ofar en Joyce, og því bjuggust flestir við því að Þungarokkarinn myndi hafa betur í viðureigninni.

Það var hins vegar Joyce sem byrjaði betur og vann fyrstu tvö settin, 3-2 og 3-2, áður en Searle vaknaði til lífsins og jafnaði metin með því að vinna næstu tvö sett, 3-1 og 3-2.

Joyce vann svo fimmta settið 3-0 áður en Searle tryggði sér oddasett með 3-2 sigri í því sjötta. Þar reyndist Joyce hafa sterkari taugar. Hann vann settið 4-2 eftir upphækun og leikinn því samanlagt 4-3.

Það voru svo þeir Scott „Shaggy“ Williams og Ricardo „Pikachu“ Pietreczko sem áttust við í annarri viðureign dagsins. 

Williams spilaði leikinn ágætlega að stærstum hluta, en útskotin fóru illa með hann og Pietreczko vann að lokum nokkuð öruggan 4-1 sigur.

Að lokum áttust Nathan „Asp“ Aspinall og Andrew „Goldfinger“ Gilding við í spennandi viðureign. Aspinall í 12. sæti heimslistans og Gilding sjö sætum neðar.

Aspinall byrjaði af miklum krafti og vann fyrstu tvö settin, 3-1 og 3-2. Hann átti í örlitlum vandræðum með þriðja settið, en hafði það 3-2 gegn kasti. Hann gerði hins vegar engin mistök í fjórða settinu, kláraði það 3-1 og leikinn samanlagt 4-0.

Nathan Aspinall, Ricardo Pietreczko og Ryan Joyce eru þar með komnir í 16-manna úrslit þar sem Aspinall og Pietreczko mætast og Joyce mætir annað hvort Luke Littler eða Ian White.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×