Isak með Newcastle á­fram á miklu flugi

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Isak hættir ekki að skora þessa dagana og er kominn með 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni.
Alexander Isak hættir ekki að skora þessa dagana og er kominn með 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Mark Leech

Newcastle hélt áfram flugi sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, með 2-1 sigri gegn Tottenham. Svíinn Alexander Isak virðist óstöðvandi og skoraði sigurmark leiksins.

Þetta var fimmti sigur Newcastle í röð og Isak hefur núna skorað níu mörk og átt tvær stoðsendingar í síðustu sjö deildarleikjum.

Tottenham, sem byrjaði með fyrirliðann Son Heung-min á bekknum og Brandon Austin í markinu í sínum fyrsta leik fyrir félagið, komst yfir í upphafi leiks. Dominic Solanke skoraði þá með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Pedro Porro.

Newcastle jafnaði hins vegar strax í kjölfarið, með umdeildu marki. Anthony Gordon skoraði þá eftir að Joelinton hafði unnið boltann á miðjum vallarhelmingi Tottenham, en boltinn fór í hönd Joelinton.

Sigurmark Isak kom svo á 38. mínútu en hann skoraði þá af stuttu færi eftir að fyrirgjöf fór af varnarmanni og stefndi að marki.

Isak hefur þar með skorað þrettán mörk í deildinni og aðeins Erling Haaland (14) og Mohamed Salah (17) hafa skorað fleiri.

Newcastle er nú með 35 stig líkt og Chelsea í 4.-5. sæti en Chelsea á þó leik til góða við Crystal Palace í dag. Nottingham Forest er svo í 3. sæti með 37 stig, Arsenal með 39 og Liverpool efst með 45 stig og leik til góða.

Tottenham er enn með 24 stig í 11. sæti, eftir aðeins eitt stig úr síðustu fjórum leikjum sínum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira