Erlent

Trump ó­sáttur að flaggað verði í hálfa við innsetninguna

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Flaggað hefur verið í hálfa til heiðurs Jimmy Carter, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Flaggað hefur verið í hálfa til heiðurs Jimmy Carter, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. AP

Donald Trump, nýkjörin forseti Bandaríkjanna, kvartaði yfir því á föstudaginn að enn þá verði flaggað í hálfa stöng við Hvíta húsið til heiðurs Jimmy Carter, fyrrverandi forseta, daginn sem innsetningarathöfn Trumps í embætti fer fram 20. janúar.

Jimmy Carter lést hundrað ára gamall þann 29. desember en hann var 39. forseti Bandaríkjanna. Dánardag Carter fyrirskipaði Joe Biden, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, að allir fánar yrðu dregnir í hálfa stöng eins og hefð er fyrir þegar að fyrrverandi bandaríkjaforseti fellur frá. Stendur það því til 29. janúar.

 Þetta hefur vakið upp gremju hjá Trump sem tjáði sig um málið í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social. Fréttastofa Reuters greinir frá.

„Demókratar eru allir léttlyndir yfir því að okkar tilkomumikli fáni verði mögulega dreginn í hálfa stöng á meðan á innsetningu minni stendur. Þeim finnst það svo frábært og eru svo glaðir því að í raun elska þeir ekki ríkið okkar, þeir hugsa aðeins um sjálfa sig,“ skrifaði hann.

Trump tók fram að enginn sannur bandaríkjamaður gæti verið ánægður ef svo fer að flaggað verði í hálfa á innsetningarathöfninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×