Enski boltinn

Everton rak Sean Dyche að­eins nokkrum klukku­tímum fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Dyche á hliðarlínunni í síðasta leik sínum sem knattspyrnustjóri Everton, í tapleik á móti Bournemouth um síðustu helgi.
Sean Dyche á hliðarlínunni í síðasta leik sínum sem knattspyrnustjóri Everton, í tapleik á móti Bournemouth um síðustu helgi. Getty/Robin Jones

Enskir miðlar segja að Everton hafi rekið knattspyrnustjórann Sean Dyche. Þetta kemur fram hjá BBC, Sky Sports og The Athletic.

Brottreksturinn kemur í kjölfarið á því að nýir eigendur í bandaríska fjárfestingafélaginu Friedkin Group eignuðust enska úrvalsdeildarfélagið fyrir stuttu.

Dyche kom á Goodison Park í janúar 2023 og bjargaði liðinu frá falli. Honum tókst það líka í fyrra þrátt fyrir að átta stig hafi verið tekin af félaginu vegna brota á rekstrarreglum.

Everton situr nú rétt fyrir ofan fallsæti með sautján stig úr nítján leikjum. Liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki en gert átta jafntefli. Everton hefur spilað í efstu deild frá árinu 1954.

Everton náði stigum af stórliðum Arsenal (0-0), Chelsea (0-0) og Manchester City (1-1) en tapaði fyrir bæði Nottingham Forest og Bournemouth á sama tímabili.

Dyche er 53 ára gamall og var áður knattspyrnustjóri Burnley frá 2012 til 2022.

Athygli vekur að fréttirnar um brottrekstur Dyche fóru í loftið aðeins nokkrum klukkutímum fyrir bikarleik liðsins á Peterborough United sem fram fer í kvöld.

Leighton Baines, þjálfari átján ára liðsins og fyrirliðinn Seamus Coleman munu stýra Everton liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×