Enski boltinn

Í sex leikja bann fyrir að hrækja á mót­herja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borja Sainz leikur ekki aftur með Norwich City fyrr en í febrúar.
Borja Sainz leikur ekki aftur með Norwich City fyrr en í febrúar. getty/MI News

Borja Sainz, markahæsti leikmaður Norwich City á tímabilinu, hefur verið dæmdur í sex leikja bann fyrir að hrækja á mótherja.

Atvikið átti sér stað í leik Sunderland og Norwich á Ljósvangi í ensku B-deildinni 21. desember. Á 74. mínútu leiksins hrækti Sainz á Chris Mepham, leikmann Sunderland.

Sainz játaði sök og bað Mepham afsökunar. Hann fékk samt sex leikja bann og tólf þúsund punda sekt frá enska knattspyrnusambandinu.

Hinn 23 ára Sainz missir af bikarleik gegn Brighton og deildarleikjum gegn Sheffield United, Leeds United, Swansea City, Watford og Derby County.

Sainz kom til Norwich frá Girensunpor í Tyrklandi fyrir tveimur árum. Á þessu tímabili hefur hann skorað sextán mörk fyrir Kanarífuglana, þar af fimmtán í B-deildinni. Norwich er í 11. sæti hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×