Hin 25 ára gamla Ásdís Karen færði sig frá Val til Lilleström í Noregi fyrir ári síðan. Hún skoraði fjögur mörk í 21 leik fyrir Lilleström er liðið endaði í 4. sæti efstu deildar Noregs á síðasta ári.
Þessi sóknarþenkjandi leikmaður hefur verið viðloðinn íslenska landsliðið undanfarin misseri og lék sinn annan A-landsleik þegar Ísland mætti Bandaríkjunum í október síðastliðnum.
Madríd CFF er í 9. sæti La Liga kvenna með 17 stig að loknum 14 leikjum, átta stigum frá fallsæti og aðeins þremur stigum frá Tenerife sem situr í 6. sæti.
Liðið hefur aðeins skorað 14 mörk til þessa í jafn mörgum leikjum og á Ásdís Karen eflaust að hjálpa til við að hrista upp í sóknarleik liðsins.