Sport

Enn í fýlu: Vill ekki fórna fríinu og finnst ó­spennandi að keppa í Hollandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mike De Decker lætur allt fara í taugarnar á sér þessa dagana.
Mike De Decker lætur allt fara í taugarnar á sér þessa dagana. getty/Nathan Stirk

Belgíski pílukastarinn Mike De Decker virðist hafa allt hornum sér þessa dagana. Nú hefur hann neitað að taka þátt í stóru móti því honum var boðið svo seint á það.

De Decker jós úr skálum reiði sinnar eftir að hann fékk ekki sæti í úrvalsdeildinni í pílukasti og sagði að um skandal væri að ræða. Hann er fyrsti Grand Prix meistarinn sem fær ekki þátttökurétt í úrvalsdeildinni í tuttugu ár.

De Decker bauðst að keppa við bestu pílukastara heims á Dutch Darts Masters þar sem sterkustu pílukastarar Benelux-landanna mæta mönnum á borð við Luke Littler og Luke Humphries. Hann hafnaði hins vegar boðinu þar sem hann er ekki tilbúinn að fórna fjölskyldufríi fyrir það.

„Ég fékk bara tölvupóst í síðustu viku um að þeir vildu fá mig. En ég verð í Dúbaí í fríi á þessum tíma svo ég get það ekki,“ sagði De Decker.

„Ef þeir hefðu bara getað boðið mér fyrr. Og fyrir upphæðina sem maður fær fyrir að taka þátt ætla ég ekki að breyta fríinu mínu. Það myndi kosta meira en ég græði. Svo ég verð ekki þar.“

De Decker kvaðst einnig ósáttur með staðsetningu mótsins. Honum fyndist ekkert spennandi að keppa í Den Bosch í Hollandi og vildi miklu frekar fara til Barein eða Ástralíu.

Sem fyrr sagði vann De Decker Grand Prix í október á síðasta ári. Hann tapaði hins vegar fyrir Luke Woodhouse í 1. umferð heimsmeistaramótsins um jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×