Enski boltinn

Chelsea að gera Naomi Girma að dýrasta leik­manni sögunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Naomi Girma í leik með bandaríska landsliðinu.
Naomi Girma í leik með bandaríska landsliðinu. Daniela Porcelli/Getty Images

Englandsmeistarar Chelsea eru við það að festa kaup á Naomi Girma fyrir meira en eina milljón Bandaríkjadala. Myndi það gera hana að dýrustu knattspyrnukonu sögunnar.

Chelsea, sem trónir á toppnum á Englandi, gerði dönsku landsliðskonuna Pernille Harder á sínum tíma að einni dýrustu knattspyrnukonu heims. Sú upphæð var þó ekkert miðað við það sem félagið er tilbúið að borga fyrir hina 24 ára gömlu Girma sem spilar með San Diego Wave í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum.

The Athletic greindi frá en Wave svaraði ekki fyrirspurn miðilsins varðandi mögulega sölu á miðverðinum knáa. Girma er bandarísk landsliðskona og á að baki 44 A-landsleiki.

„Hún er besti varnarmaður sem ég hef á ævi minni séð,“ sagði Emma Hayes, fyrrverandi þjálfari Chelsea og núverandi þjálfari bandaríska landsliðsins, um miðvörðinn.

Chelsea er ekki eina félagið sem vildi fá Girma í sínar raðir en franska stórveldið Lyon var einnig tilbúið að borga eina milljón Bandaríkjadala til að fá hana í sínar raðir. Chelsea er því tilbúið að greiða 1,1 milljón Bandaríkjadala eða 155 milljónir íslenskra króna.

Chelsea hefur verið án Kadeisha Buchanan síðan hún sleit krossband í hné í nóvember. Liðið er því í leit að miðverði er það berst um enska meistaratitilinn, enska bikarinn og sigur í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×