Þetta stendur í bréfi sem Caroline Kennedy sendi þingmönnum í aðdraganda þess að tilnefning frænda hennar verður tekin fyrir á þingi seinna í vikunni. Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir efasemdum um hæfi Roberts Kennedy yngri í embætti heilbrigðisráðherra og fleiri hafa ekki viljað gefa upp afstöðu sína.
Blaðamenn Washington Post hafa komið höndum yfir bréfið en í því skrifar Caroline Kennedy að hún og Robert F. Kennedy yngri hafi alist upp saman og því þekki hún hann vel.

„Það kemur ekki á óvart að hann haldi ránfugla sem gæludýr því hann er sjálfur rándýr,“ skrifar hún. Caroline heldur því einnig fram að Robert hafi leitt aðra úr Kennedyfjölskyldunni í fíkn. Hann hafi boðið fólki upp á fíkniefni í gegnum árin og sýnt fólki hvernig hann setti unga og mýs í blandara til að fæða hauka sem hann hélt sem gæludýr.
Sem heilbrigðisráðherra myndi Kennedy meðal annars hafa stjórn á rúmum átta milljörðum dala sem varið er til þróunar bóluefna og bólusetningar barna. Hann gæti einnig skipað fólk í áhrifamikla nefnd sem veitir ríkjum ráðleggingar varðandi bóluefni.
Caroline hrósaði frænda sínum fyrir að koma sér upp úr veikindum en sagði aðra ættingja sem hafi fylgt honum í fíkn ekki hafa náð sama árangri og þeir hafi jafnvel dáið, á meðan Robert hafi haldið áfram og logið og svindlað sig í gegnum lífið.
Þá skrifaði hún einnig að Robert væri hræsnari þegar kæmi að bóluefnum. Hann hefði ítrekað hvatt foreldra til að bólusetja börn sín ekki, þó hann hafi sjálfur látið bólusetja sín eigin börn.
Fyrsti fundurinn á morgun
Kennedy mun mæta fyrir tvær nefndir öldungadeildarinnar í þessari viku, eftir nokkrar tafir. Fyrri fundurinn fer fram á morgun en hann stendur frammi fyrir nokkurri mótspyrnu og að virðist einnig innan Repúblikanaflokksins. Hvort sú mótspyrna muni þó skila atkvæðum gegn tilnefningu hans verður að koma í ljós en Repúblikanar hafa ekki sýnt mikinn vilja til að standa gegn Trump þegar kemur að tilnefningum hans.
Í gegnum árin hefur hann ítrekað dreift samsæriskenningum og ósannindum um ýmsa hluti eins og meinta skaðsemi bóluefna, það að þráðlaust net valdi krabbameini og að þunglyndislyf leiði til skotárása í skólum Bandaríkjanna.
Eins og það er orðað í frétt NPR hefur Robert F. Kennedy yngri safnað miklum auð á því að segja ósatt um vísindamenn og stofnanir sem hann á nú að leiða.
Miðillinn bendir einnig á að hann stendur í málaferlum vegna bóluefna, sem hann gæti mögulega hagnast á, á sama tíma og hann á stýra málefnum bóluefna og lyfjaframleiðenda í Bandaríkjunum.