Andrés Björgvinsson varð Íslandsmeistari í matreiðslu, Daníel Árni Sverrisson í framreiðslu og Ásbjörn Geirsson í kjötiðn.
„Keppnin er afar mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk í matreiðslu- og framreiðslugreinum þar sem reynir á fagmennsku, nákvæmni, skapandi eiginleika og seiglu. Dómarar höfðu á orði að sjaldan hefði valið verið jafn erfitt og í ár,“ segir í fréttatilkynningu.
Sautján keppendur í matreiðslu
Alls kepptu sautján í matreiðslu og Andrés Björgvinsson stóð uppi sem Íslandsmeistari. Nemar ársins voru Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir og Sindri Hrafn Rúnarsson.

„Í forrétt unnu keppendur með rauðsprettu, íslenskar rækjur og grænan aspas og í aðalrétt var verkefnið að elda grísalund og grísasíðu, jarðskokka og dökka soðsósu.
Í matreiðslu var Jakob Hörður Magnússon yfirdómari og smakkdómari. Smakkdómarar voru einnig Ólöf Jakobsdóttir og Hallgrímur Friðrik Sigurðarson og eldhúsdómarar þeir Rafn Heiðar Ingólfsson og Kjartan Marínó Kjartansson.“
Viðamikil og spennandi keppni í framreiðslu
Fimm kepptu í framreiðslu og stóð Daníel Árni Sverrisson uppi sem Íslandsmeistari í greininni. Nemar ársins voru Tristan Tómasson og Silvía Louise Einarsdóttir.
„Verkefnin voru viðamikil og hefðbundin að vanda. Nemar drógu um tvo kokteila, spreyttu sig á vínpörun, dekkuðu fyrir fjögurra rétta kvöldverð, unnu blómaskreytingu, gerðu tíu mismunandi servíettubrot, greindu 10 mismunandi glös af styrktum vínum og umhelltu víni.

Þá þurftu keppendur að sýna fram á færni á fyrirskurði og diska upp fyrir framan dómara. Auk þess að sýna ávaxtaskurð og eldsteikingu. Dómarar voru Sigurður Borgar Ólafsson og Axel Árni Herbertsson.“
Vandað til verka í kjötiðn
Tveir kepptu í kjötiðn og varð Ásbjörn Geirsson Íslandsmeistari og nemi ársins var Friðrik Björn Friðriksson.

„Keppendur í kjötiðn vönduðu til verka og fengu gæðahráefni í hendur. Verkefnin fólu í sér að verka lambalæri, lambahrygg, ½ frampart, 1 stk. grísaframpart, 1 stk. nautamjöðm, 1 stk. nautaframhrygg og 1 stk. Kjúkling sem keppendur áttu að vinna eftir eigin hugmyndum. Dómarar í kjötiðn voru Stefán Einar Jónsson og Jóhannes Númaso.“
Hér má sjá fleiri myndir frá Íslandsmótinu:








