Handbolti

Haukar töpuðu stórt í Tékk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Sif Helgadóttir stóð vaktina í marki Hauka í dag.
Sara Sif Helgadóttir stóð vaktina í marki Hauka í dag. Vísir/Anton Brink

Haukar máttu þola 11 marka tap gegn Házená Kynžvart í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum EHF-bikars kvenna í handbolta. Lokatölur í Tékklandi 35-24 og Hauka bíður ærið verkefnið á Ásvöllum eftir viku.

Haukar hafa gert vel til þessa í keppninni en lentu svo sannarlega á vegg í Tékklandi í dag. Liðið lenti 6-0 undir í upphafi leiks en náði að minnka muninn niður í þrjú mörk og voru um tíma inn í leiknum.

Slæmur kafli undir lok fyrri hálfleiks þýddi að munurinn var sex mörk í hálfleik, staðan þá 17-11. 

Í síðari hálfleik gáfu heimakonur í og sáu Haukar aldrei til sólar. Munurinn var orðinn tíu mörk þegar síðari hálfleikur var hálfnaður og þegar lokaflautið gall var munurinn 11 mörk, lokatölur eins og áður sagði 35-24.

Markahæst í liði Hauka var Sara Marie Odden með 6 mörk. Þar á eftir komu Elín Klara Þorkelsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Alexandra Líf Arnarsdóttir með 4 mörk hver. Sara Sif Helgadóttir varði þá níu skot í markinu.

Síðari leikur liðanna fer fram á Ásvöllum í Hafnafirði að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×