Fótbolti

Víkingar sáu Sverri Inga skora í sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi kom sínum mönnum yfir.
Sverrir Ingi kom sínum mönnum yfir. Franco Arland/Getty Images

Samkvæmt heimildum Vísis var lið Víkings á vellinum þegar Sverrir Ingi Ingason skoraði í 2-1 sigri Panathinaikos á Hirti Hermannssyni og félögum í Volos.

Bæði Sverrir Ingi og Hjörtur voru í hjarta varnarinnar hjá sínum liðum í dag. Sá fyrrnefndi kom Panathinaikos yfir á 20. mínútu eftir undirbúning Karol Swiderski. Staðan var 1-0 í hálfleik og var orðin 2-0 þegar gestirnir í Volos minnkuðu muninn.

Víkingar eru mættir til Grikklands þar sem þeir undirbúa sig fyrir síðari leik sinn gegn Sverri Inga og félögum í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. Víkingar unnu frækinn 2-1 sigur á „heimavelli“ í Finnlandi á dögunum og því mikil spenna fyrir leiknum sem fram fer á fimmtudaginn kemur.

Eftir sigur dagsins er Panathinaikos í 3. sæti með 46 stig, fimm stigum á eftir toppliði Olympiacos. Volos er í 12. sæti af 14 liðum með 21 stig.

Í Danmörku var Mikael Andersson á skotskónum þegar AGF vann gríðarlega sannfærandi 4-1 útisigur á Sönderjyske. Mikael skoraði annað mark gestanna en gamla brýnið Patrick Mortensen skoraði þrennu fyrir AGF.

Kristall Máni Ingason var í byrjunarliði Sönderjyske en var tekinn af velli á 82. mínútu á meðan Mikael spilaði allan leikinn.

AGF er í 3. sæti með 31 stig, tveimur minna en topplið FC Kaupmannahöfn og Midtjylland sem eiga bæði leik til góða. Sönderjyske er í 10. sæti með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×