Enski boltinn

Enginn lagt upp fleiri mörk en Eder­son

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hélt marki sínu hreinu ásamt því að gefa sögulega stoðsendingu í 4-0 sigri á Newcastle.
Hélt marki sínu hreinu ásamt því að gefa sögulega stoðsendingu í 4-0 sigri á Newcastle. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Með stoðsendingu sinni gegn Newcastle United er Ederson, markvörður Manchester City, nú stoðsendingahæsti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Nýi maðurinn Omar Marmoush stal fyrirsögnunum þegar hann skoraði þrennu í 4-0 sigri Man City á Newcastle United um liðna helgi. Fyrsta markið af þremur kom eftir hárnákvæma sendingu fram völlinn frá Ederson.

Marmoush gerði vel í að halda Kieran Trippier fyrir aftan sig og lyfti boltanum svo snyrtilega yfir Martin Dúbravka í marki Newcastle. Markið má sjá í upphafi myndbandsins hér að neðan.

Þetta var sjötta stoðsending Ederson í ensku úrvalsdeildinni sem þýðir að enginn markvörður í sögu deildarinnar hefur lagt upp jafn mörg mörk.

Paul Robinson, fyrrverandi markvörður Leeds United, Tottenham Hotspur og Blackburn Rovers, lagði á sínum tíma upp fimm mörk en hann var þekktur fyrir sín gríðarlega löngu spörk. Hann gerðist einnig svo frægur að vera einn fárra markvarða sem hafa skorað í ensku úrvalsdeildinni. Ederson á það eftir.

Það magnaða við stoðsendingar Ederson er að þrjár þeirra hafa komið á yfirstandandi leiktíð. Sú fyrsta kom 14. september gegn Brentford. Svo var það 25. janúar gegn Chelsea og nú síðast 15. febrúar gegn Newcastle.

Fram að yfirstandandi leiktíð hafði Ederson mest lagt upp eitt mark í deildinni á leiktíð. Það gerði hann 2018-19, 2020-21 og 2022-23. 

Það virðist því sem Pep Guardiola, þjálfari City, hafi gefði markverðinum grænt ljós þegar kemur að því að lyfta boltanum yfir varnir andstæðinganna. Framherjinn Erling Haaland hefur grætt hvað mest á því en þrívegis hefur Norðmaðurinn skorað eftir stoðsendingu frá markverðinum knáa.

Hinir sem hafa skorað eftir sendingar Ederson eru áðurnefndur Marmoush, framherjinn fyrrverandi Sergio Agüero og miðjumaðurinn İlkay Gündoğan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×