Þetta hefur verið heldur annasamur dagur hjá Bandaríkjaforseta en í dag birti hann færslu á samfélagsmiðil sinn þar sem hann kallaði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta einræðisherra og gaf það til kynna að hann væri spilltur. Voru þetta viðbrögð hans við ummælum Selenskís um að Trump byggi í heimi falsupplýsinga eftir að Trump sagði Úkraínu bera ábyrgð á innrás Rússa inn í landið ásamt öðrum lygum og fölskum ásökunum.
Þessi rimma leiðtoganna kemur einnig í kjölfarið á því að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittust í Sádí-Arabíu og ræddu það meðal annars hvernig hægt væri að binda enda á stríðið í Úkraínu. Það var gert mjög skýrt að Selenskí væri ekki boðið né neinum fulltrúa Evrópuríkis.
Nú um kvöldmatarleytið á íslenskum tíma birti hann síðan ofannefnda færslu þar sem hann fagnar því að hann hafi með forsetatilskipun komið í veg fyrir að New York-borg innleiddi sérstakt gjald til að stemma stigu við stöðugar umferðarteppur í þessari stærstu borg Bandaríkjanna.
„UMFERÐARGJALDIÐ ER DAUTT. Manhattan, og allri New York, er borgið. KONUNGURINN LENGI LIFI!“ skrifaði hann í færslu á Truth Social, samfélagsmiðlinum sem hann stendur sjálfur að.
"CONGESTION PRICING IS DEAD. Manhattan, and all of New York, is SAVED. LONG LIVE THE KING!"
— The White House (@WhiteHouse) February 19, 2025
–President Donald J. Trump pic.twitter.com/IMr4tq0sMB
Um hálftíma seinna birti svo opinber reikningur Hvíta hússins á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, mynd af Trump með gimsteinum skrýdda kórónu á höfði standa brosandi fyrir framan háhýsi New York-borgar. Í færslunni hafa þau fyrrnefnt tíst eftir forsetanum. Myndin er búin til með aðstoð gervigreindar og virðist vera stæling á forsíðum tímaritsins Time. Forsíðufyrirsögnin er: „Konungurinn lengi lifi.“