Enski boltinn

Arsenal aldrei aflað meira en tapaði samt þremur milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Merino er einn af nýjustu leikmönnum Arsenal en launakostnaður félagsins hækkaði mikið milli ára.
Mikel Merino er einn af nýjustu leikmönnum Arsenal en launakostnaður félagsins hækkaði mikið milli ára. Getty/MI News

Þrátt fyrir metinnkomu hjá Arsenal þá var enska úrvalsdeildarfélagið rekið með miklum halla á síðasta fjárhagsári.

Arsenal hefur gefið úr fjárhagsreikning síðasta rekstrarárs sem endaði 31. maí 2024.

Arsenal aflaði á þessu fjárhagsári 616,6 milljónum punda sem eru meira en 109 milljarðar í íslenskum krónum. ESPN sagði frá.

Þetta er mikið stökk frá árinu á undan þar sem Arsenal fékk 466,7 milljónir punda inn úr rekstrinum.

Þrátt fyrir þetta þá var tapið á þessum tólf mánuðum 17,7 milljónir punda eða 3,1 milljarður króna.

Gjöldin voru nefnilega hærri en heildarinnkoman. Hér munaði miklu um að launakostnaðurinn hækkaði úr 234,8 milljónum punda upp í 327,8 milljónir punda. Launin hækkuðu um fjörutíu prósent en innkoman um 32 prósent.

Arsenal borgaði því 93 milljónir punda meira í laun til leikmanna sem er hækkun upp á 16,5 milljarða í íslenskum krónum.

Inn í kostnaðinum eru stór kaup á leikmönnum því á þessum tólf mánuðum borgaði Arsemal 105 milljónir punda fyrir Declan Rice, 67,5 milljónir punda fyrir Kai Havertz og 38 milljónir punda fyrir Jurriën Timber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×