Enski boltinn

Amorim: Við þurfum að lifa þetta tíma­bil af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim á hliðarlínunni á Goodison Park í dag. Manchester United lðið gerði vel síðustu tuttugu mínúturnar en var hörmulegt fram að því.
Ruben Amorim á hliðarlínunni á Goodison Park í dag. Manchester United lðið gerði vel síðustu tuttugu mínúturnar en var hörmulegt fram að því. Getty/Robbie Jay Barratt

Ruben Amorim sá sína menn í Manchester United bjarga stigi undir lokin í 2-2 jafntefli á móti Everton í Goodison Park i ensku úrvalsdeildinni í dag.

Everton fékk reyndar víti í uppbótatíma en dómarinn var kallaður í skjáinn og eftir það hætti hann við að dæma vítið.

„Þetta var lítil snerting þaðan sem ég sá þetta. Þetta hefði verið mjög harður dómur að mínu mati,“ sagði Ruben Amorim, þjálfari Manchester United eftir leikinn.

„Við verðum að fara ná í þrjú stig og klára heilan leik. Það versta við okkar leik er að við erum að tapa boltanum án þess að vera undir pressu. Við vorum líka alltof mjúkir,“ sagði Amorim.

„Við breyttum engu í seinni hálfleik. Við verðum að halda áfram að gera það sama en gera það vel. Við verðum samt að bæta okkur í að skapa færi en við voru líka í vandræðum með að skora mörk í þessum leik,“ sagði Amorim.

„Ég veit ekki hvað veldur þessum skorti á stöðugleika. Ég mun breyta því. Allt sem við gerum í vikunni þurfum við að gera betur í leikjunum. Á þessum tímapunkti þá þurfum við að einbeita okkur að hverjum degi fyrir sig. Við þurfum að lifa þetta tímabil af og horfa síðan fram á veginn. Ég vil ekki bara tala neikvætt því í seinni hálfleik vorum við nálægt því að vinna þennan leik,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×