Innlent

„Ekki sitja í störukeppni á meðan molnar undan unga fólkinu“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ótímabundið verkfall er skollið á í Verkmenntaskólanum á Akureyri og í Menntaskólanum á Akureyri. Skólameistarar við framhaldsskólana segja afar tómlegt á göngum skólanna.
Ótímabundið verkfall er skollið á í Verkmenntaskólanum á Akureyri og í Menntaskólanum á Akureyri. Skólameistarar við framhaldsskólana segja afar tómlegt á göngum skólanna.

Hljóðið er fremur þungt í skólameisturum Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri en ótímabundið verkfall er skollið á í skólunum tveimur, auk þriggja annarra. Þeir vilja að deiluaðilar sitji við og fundi að lausn deilunnar, það sé ekki í boði að vera í störukeppni á meðan nemendur verði af menntun.

Á föstudag greindi stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því að hún féllist ekki á innanhústillögu ríkissáttasemjara sem hljóðaði upp á 24,5% launahækkun á samningstímanum.

Síðar greindi Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og formaður SÍS frá því að hún hefði stutt tillöguna og að til greina kæmi að Reykjavík gerði sérkjarasamning við kennara. Fréttastofa hefur ekki fengið skýr svör frá borgarstjóra í dag um hvort þetta standi til. Síðdegis sendu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði frá sér yfirlýsingu um þeir styddu afstöðu formannsins.

Ríkissáttasemjari segir í samtali við fréttastofu að enginn formlegur fundur sé á dagskrá en í dag var samfélagsmiðlaherferð kennara áberandi þar sem þeir sögðust vilja söðla um.

Enginn fundur er á dagskrá í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög.Vísir/Vilhelm

Tómlegt í framhaldsskólunum fyrir norðan

Ótímabundin verkföll í fimm framhaldsskólum eru í fullum gangi og staðan er þung fyrir norðan. Karl Frímannsson skólameistari MA segir að það sé afar tómlegt í skólanum sem venjulega iði af lífi.

„Okkar nemendur eru flestir frá Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu en þau sem búa ekki á Akureyri eru væntanlega langflest farin heim þannig að það fækkar nú alveg um 150-200 manns í bænum bara við verkfallið.“

Nýjar leikreglur ef borgin gerir sérkjarasamning

Hann óttast að verkfallið muni dragast á langinn.

„Eins og staðan er orðin núna þá lýst mér ekki vel á blikuna og ég met stöðuna þannig að deilan sé komin í mjög harðan hnút. Þegar þetta er komið á þann stað að stærsta sveitarfélag landsins hótar því að semja sérstaklega þá eru komnar nýjar leikreglur,“ segir Karl.

Vilja meiri upplýsingar um gang mála

Bæði Karl og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA eru ósátt við að fá ekki upplýsingar um stöðu mála af hálfu samninganefndar ríkisins.

„Samninganefnd ríkisins er bara aldrei í umræðunni. Þau gefa ekki einu sinni upp afstöðu sinna til þeirra tillagna sem liggja fyrir,“ segir Karl og Sigríður tekur í sama streng.

„Mér finnst þögnin frá samninganefnd ríkisins hafa verið nánast algjör í öllu þessu ferli. Það hefur heyrst miklu meira frá samninganefnd sveitarfélaganna heldur en samninganefnd ríkisins. Við erum ekki mikið upplýst um hvað er í gangi.“

Verkföllin bitni þyngst á nemendum sem búi við misgóðar aðstæður.

„Skóli er fyrir suma nemendur ákveðið öryggi og ákveðið athvarf. Þegar þessi griðastaður er dottinn út þá hefur það áhrif á þá einstaklinga sem hafa mestan stuðning í sínu lífinu í gegnum skólann sinn,“ segir Sigríður og Karl lýsir áhyggjum af sínum nemendum.

„Við langvarandi verkföll í framhaldsskólum eykst hættan á brottfalli. Tölurnar segja okkur það. Sum eru með sterkt bakland og önnur ekki og mörg þeirra hafa góð og öflug áhugamál á meðan önnur hafa þau ekki,“ segir Karl.

Þeim gremst að ekki sé fundað.

„Miðað við hnútukastið á föstudaginn og um helgina að þá hef ég bara áhyggjur af því að fólk setjist ekki einu sinni niður,“ segir Karl.

Sigríður vildi að lokum fá að koma skilaboðum til samninganefndanna.

„Fariði að klára þetta. Það eru mín skilaboð út í kosmósið til þeirra sem vinna að þessum málum. Ekki sitja bara i störukeppni á meðan molnar undan unga fólkinu okkar.“


Tengdar fréttir

Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn haldi skólakerfinu í gíslingu

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hafi lýst yfir fullum stuðningi við þá afstöðu formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að samþykkja innanhússtillögu ríkissáttasemjara sem lögð var fram 20. febrúar síðastliðinn. Þeir segja fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar halda skólakerfinu í gíslingu með pólitískum leikjum.

Óttast afleiðingarnar ef kennarar fá mun meiri hækkun en aðrir

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist hafa haft áhyggjur af fyrri innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kennaradeilunni sem opinberir launagreiðendur samþykktu en nýja tillagan hljóðar upp á enn hærri upphæðir. Hún segist velta fyrir sér hvaða áhrif slíkar hækkanir, ef af verður, muni hafa á þá samninga sem þegar hafa verið gerðir og þá sem eftir á að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×