Enski boltinn

Endurkomukóngarnir í Leeds með fimm stiga for­skot á toppnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joel Piroe gulltryggði sigurinn með glæsilegu marki í uppbótartíma.
Joel Piroe gulltryggði sigurinn með glæsilegu marki í uppbótartíma. Danny Lawson/PA Images via Getty Images

Leeds vann enn einn endurkomusigurinn, í þetta sinn í toppslag á útivelli gegn Sheffield United. Lokatölur 1-3 fyrir Leeds eftir að liðið lenti undir snemma. Leeds er nú með fimm stiga forskot í efsta sæti Championship deildarinnar á Englandi.

Markmaður Leeds, Illan Meslier, varð fyrir því ólani að slá boltann í eigið net á fjórtándu mínútu eftir skalla í stöngina frá Tyrese Campbell.

Atvikið var mjög klaufalegt en boltinn endaði í netinu og Sheffield United komst yfir.George Wood/Getty Images

Sheffield hélt forystunni þar til um miðjan seinni hálfleik þegar Junior Firpo stangaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Dan James og jafnaði leikinn.

Með jafna stöðu opnaðist leikurinn upp á gátt og lokamínúturnar urðu æsispennandi.

Leeds var þó líklegri aðilinn og átti stórkostlegt skot á 89. mínútu sem markmaður Sheffield varði á einhvern ótrúlegan hátt. En upp úr því kom hornspyrna sem var skorað úr, Ao Tanaka lúrði á fjærstönginni og kom boltanum í netið þegar hann barst.

Gestirnir voru ekki hættir og gulltryggðu sigurinn örskömmu síðar. Joel Piroe negldi boltanum í netið úr skoti rétt fyrir utan teig.

Joel Piroe átti snilldarskot í síðasta markinu.George Wood/Getty Images

Leeds vann því enn einn endurkomusigurinn eftir að hafa lent undir og situr áfram í efsta sæti deildarinnar, nú með fimm stiga forystu og sextán leiki spilaða í röð án taps. 

Sheffield United er í öðru sæti með 70 stig og Burnley í þriðja sæti með 68 stig, þegar 34 af 46 leikjum hafa verið spilaðir.

Þjálfarinn sat uppi í stúku

Leeds söknuðu þjálfara síns, Daniel Farke, af hliðarlínunni í kvöld. Hann fékk tvö gul spjöld í síðasta leik, það seinna fyrir að fagna sigurmarki í uppbótartíma, og var því í banni í kvöld. Þetta var í fyrsta sinn á sautján ára þjálfaraferli sem hann þarf að horfa á leik síns liðs úr stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×