Innlent

Þung færð fyrir vestan og víðar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ófært er um Dynjandisheiðina og í Raknadalshlíð er óvissustig vegna snjóflóðahættu.
Ófært er um Dynjandisheiðina og í Raknadalshlíð er óvissustig vegna snjóflóðahættu. Vilhelm

Færð er nokkuð þung víða um land. Á Suðvesturlandi er hálka og éljagangur á Hellisheiði, í Þrengslum, á Mosfellsheiði og á Krýsuvíkurvegi.

Mikið af holum hafa myndast á svæðinu og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Á Vestfjörðum er ófært á Kleifaheiði og á Klettshálsi en þungfært á Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingsfærð er á Súðavíkurhlíð, Þröskuldum, Hálfdán og í Mikladal og einbreitt þar á köflum að því er segir á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar. Krapi eða snjóþekja er síðan á öðrum leiðum. Þá er Dynjandisheiðin ófær og óvissustig á veginum um Raknadalshlíð vegna snjóflóðahættu.

Á Norðurlandi er flughálka á Þverárfjalli og hvasst og eru vegfarendur hvattir til að aka varlega. Þungfært er um Öxnadalsheiði og krapi víða. Á Austurlandi síðan snjóþekja eða krapi á flestum leiðum og hálka á Fagradal. Svipuð staða er á Suðurlandi en þar varar Vegagerðin einnig við því að víða hafi myndast holur og eru vegfarendur beðnir um að fara með gát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×