Handbolti

Al­dís Ásta og fé­lagar fóru illa með liðið fyrir neðan þær í töflunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir og félagar hennar sýndu styrk sinn í kvöld.
Aldís Ásta Heimisdóttir og félagar hennar sýndu styrk sinn í kvöld. Skara

Aldís Ásta Heimisdóttir og félagar hennar í Skara áttu frábært kvöld í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Skara vann þá fjórtán marka heimasigur á liði H 65 Hoor, 33-19, liði sem var í næsta sæti fyrir neðan þær í töflunni.

Skara hoppaði með þessum sigri úr þriðja sætinu og upp í annað sætið. H 65 Hoor er áfram í fjórða sætinu.

Aldís Ásta skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu í leiknum.

Þetta var þriðji sigur Skara í röð og enn fremur ellefti sigur liðsins í síðustu tólf deildarleikjum. Þær eru því til alls líklegar á lokasprettinum.

Skara byrjaði leikinn frábærlega og komst í 5-0 eftir sjö mínútna leik. Skara var síðan 8-1 yfir þótt að tvö fyrstu skot Aldísar Ástu hafi ekki ratað rétta leið.

Það munaði tólf mörkum í hálfleik en Skara hélt mótherjum sínum í aðeins fjórum mörkum í hálfleiknum og leiddi 16-4. Markvörðurinn Isabella Mouratidou varði 15 af 18 skotum sem komu á hana en það gerir 83 prósent markvörslu sem eru tölur sem þú sérð ekki á hverjum degi í handboltanum.

Úrslitin voru nánast ráðin í hálfleik en Skara gaf lítið eftir í þeim síðari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×