Innlent

Berg­hildur Erla hlaut blaða­manna­verð­laun fyrir Vist­heimilin

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Berghildur Erla Bernharðsdóttir hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins. 
Berghildur Erla Bernharðsdóttir hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins.  Vísir/Vilhelm

Blaðamannaverðlaunin voru veitt fyrr í kvöld. Berghildur Erla Bernharðsdóttir, blaðamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins fyrir þættina Vistheimilin. 

„Rannsóknarvinna blaðamannsins skín í gegn í ítarlegum og vönduðum þáttum þar sem viðmælendur stíga fram og ræða þungbæra lífsreynslu, margir hverjir í fyrsta sinn. Fjölmargar aðrar heimildir eru dregnar fram og settar í samhengi. Umfjöllunarefni sem erfitt er að gera myndræn skil en það er leyst á bæði hugmyndaríkan og áhrifamikinn hátt,“ segir í rökstuðningi dómnefndar fyrir verðlaununum. 

Tilnefnd í sama flokki voru Guðrún Hulda Pálsdóttir, Bændablaðinu fyrir umfjöllun um einokun á íslenskum markaði með koltvísýring sem er nauðsynlegur í ylrækt og Pétur Magnússon, RÚV, Fyrir útvarpsþáttaröðina Skaða.

Tvö verðlaun til RÚV og ein til Heimildarinnar

Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Freyr Gígja Gunnarsson, RÚV, fyrir fréttaskýringar í Speglinum. Í sama flokki var Auður Jónsdóttir, Heimildinni, tilnefnd fyrir fjölbreytt viðtöl og umfjallanir. Og Hólmfríður María Ragnhildardóttir, Morgunblaðinu og mbl.is, fyrir umfjöllun um skólakerfi í vanda. 

Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Heimildinni, hlutu blaðamannaverðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir fréttaskýringar um Running Tide. 

Tilnefnd voru að auki Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Árni Þór Theodórsson, fréttamenn hjá RÚV, fyrir umfjöllun um unga fatlaða einstaklinga sem vistaðir eru á hjúkrunarheimilum, og Urður Örlygsdóttir og Arnar Þórisson, fréttamenn hjá RÚV, fyrir umfjöllun um mansal á matsölustöðum Quang Le.

Verðlaun fyrir viðtal ársins hlaut Eva Björk Benediktsdóttir, RÚV, fyrir viðtal við Hafdísi Báru Óskarsdóttur sem varð fyrir lífshættulegri líkamsárás. 

Tilnefnd í sama flokki voru Erla Hlynsdóttir, Heimildinni, fyrir fyrir viðtal við Agnesi M. Sigurðardóttur biskup og Kolbeinn Tumi Daðason fréttastjóri Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fyrir viðtal við Davíð Viðarsson. 

Dómnefndina skipuðu Sunna Kristín Hilmarsdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Helga Arnardóttir, Jóhann Óli Eiðsson og Pálmi Jónasson. Nefndinni bárust um tvö hundruð ábendingar um mögulegar tilnefningar á vefsíðu Blaðamannafélagsins. 

Fréttin verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×